Ég vakna oftast þreyttur, varla með sjálfum mér
En ég veit það er til annað líf en það sem ég lifi hér
Og þrá mín hún vakir, meðan þokan byrgir mér sýn
Mig þyrstir í eitthvað annað en gúanó, tékka og vín
Á fiskinum lifir þorpið, þorskurinn er fólkinu allt
Það þrælar alla vikuna, vaðandi slor og salt
Við færibandið standa menn en þeir finna þar enga ró
Flestir þeir ungu komnir suður þar sem að draumunum er nóg
Langa dimma vetur vindurinn smaug í gegnum allt
Kannski var öllum öðrum hlýtt en mér var allaveganna kalt
Það biðu allir eftir sumrinu en biðin var löng og ströng
Bátarnir lágu tómir við kajann í kinnungunum söng
Faðir minn átti drauma sem dóu fyrir lítið fé
Mig dreymdi um að verð'að manni en ég náði honum aðeins í hné
Ég gleymi seint þeim augum, gínandi botnlaust tóm
Gamall maður fyrir aldur fram með brostinn hrjúfan róm
Þegar ég var rétt orðinn sautján, um sumarið barst mér frétt
Að sæta dúkkan hans Bensa í Gröf væri orðin kasólétt
Næturnar urðu langar, nagandi óttinn með
Negldur ég gat ekki tekið til baka það sem hafði skeð
Aldrei fór ég suður, alltaf skorti mig þor
Hvert einasta sumar var því frestað, svo kom haust og svo vetur og vor
Nú er ég kominn á planið og ég pæli ekki neitt
Ég pækla mínar tunnur fyrir það ég fæ víst greitt
Ég hugsa oft um börnin mín, bráðum kemur að því
Að þau bíða ekki lengur, þau fara, hér er ekkert sem heldur í
Enn koma tómir bátarnir og bræðslan stendur auð
Baráttan er vonlaus þegar miðin eru dauð